Skilmálar

fyrir aðgang notenda að Möppunni


1.      Almennt um Möppuna

Mappan er tölvukerfi sem er tengt Netinu til að gera kaupendum kleift að setja gögn inn í kerfið og birta þau fyrir viðskiptavinum sínum í pósthólfum þeirra á Vefnum (Veraldarvefnum).

Tegundir þeirra gagna sem birt eru samkvæmt samningi þessum ráðast af því hvaða gögn kaupendur setja fyrir notendur inn í kerfið.

Samningur þessi tekur ekki til nauðsynlegs eða æskilegs búnaðar fyrir tengingu við Möppuna, svo sem vélbúnaðar eða nettengingar notenda eða annars hugbúnaðar en þess sem notendum kann að vera lagður til samkvæmt samningi þessum.

2.      Samningsskjöl

Aðgangur notenda að Möppunni er veittur gegn því að þeir samþykki fyrirfram skilmála þessa.

Sért þú ekki í einu og öllu samþykkur því sem fram kemur í þessum skilmálum er þér eindregið og vinsamlegast bent á að nýta þér ekki Möppuna og smella því ekki á þann hnapp í viðmóti þessu sem merktur er „SAMÞYKKJA SKILMÁLA“.

Með því að smella á hnapp í viðmóti þessu merktur „SAMÞYKKJA SKILMÁLA“ staðfestir þú, fyrir þína hönd og eftir atvikum fyrir hönd þess lögaðila sem þú ert fulltrúi fyrir, að þú hafir kynnt þér efni skilmála þessara, að þú samþykkir þá án fyrirvara, að þú skuldbindir þig til að fylgja þeim í hvívetna og að þú undirgangist þær skyldur notanda sem í þeim felast, þar með talið það afsal réttinda sem þar er lýst.

3.      Skilgreiningar

Eftirtalin hugtök hafa svofellda merkingu þar sem þau koma fyrir í samningi þessum:

·       ePóstur er félagið ePóstur ehf., kt. 571212-0130.

·       Kaupandi er sá sem keypt hefur sér aðgang að Möppunni til að birta þar upplýsingar fyrir viðskiptavinum sínum.

·       Notandi er viðskiptavinur kaupanda, sem kaupandi hefur veitt aðgang að Möppunni til að skoða þar gögn sem kaupandi hefur sett inn, auk starfsmanna og annarra einstaklinga sem koma fram fyrir hönd viðskiptavinarins eða hann ber með öðrum hætti ábyrgð á.

·       Mappan er heild þess vélbúnaðar, netbúnaðar, gagnatenginga, gagnagrunna, stýrikerfa vélbúnaðar og hugbúnaðar sem hýstur er miðlægt á vegum ePósts og ePóstur veitir notanda aðgengi að samkvæmt samningi þessum, auk þess hugbúnaðar sem Mappan kann að leggja kaupanda til í tengslum við samninginn.

·       Pósthólf er læst vefsvæði þar sem notandi hefur aðgang að þeim gögnum sem kaupandi gerir honum aðgengileg eða notandi hefur móttekið frá öðrum notendum.

·       Vefsíða Möppunar er aðgengileg á slóðinni http://www.mappan.is

4.      Aðgangur að Möppunni

4.1.        Innsendingar í Möppuna

Kaupendur geta sett gögn inn á sín svæði í Möppunni og merkt þar gögn sem þeir vilja að verði send þaðan í pósthólf einstakra notenda. Mappan vaktar allar innsendar skrár frá kaupendum og keyrir þær reglulega inn í pósthólf notenda.

Notendur geta framsent öðrum notendum gögn af sínu svæði í Möppunni, eftir að móttakandinn hefur samþykkt að taka á móti sendingum frá viðkomandi sendanda. Notendur geta einnig framsent öðrum notendum textaskilaboð, ásamt viðhengi allt að 5 Mb að stærð, að sömu skilyrðum uppfylltum.

Þegar gögn frá kaupanda eða notanda eru keyrð inn í pósthólf annars notanda eignast sá notandi einn endanleg, full og óafturkræf yfirráð yfir viðkomandi gögnum og sendandi getur því ekki afturkallað, leiðrétt eða breytt slílkri sendingu eftir að hún hefur átt sér stað. Einungis er hægt að leiðrétta sendingu með því að keyra uppfærða útgáfu af henni inn í pósthólf viðkomandi notanda.

4.2.        Ekki eftirlit með efni

Mappan tekur við þeim gögnum sem kaupendur setja inn í hana og tilkynnir þeim um tilteknar villur eða vandamál við innlestur gagna. Þá kunna sendingar sem ekki fullnægja tæknilegum eða öðrum skilyrðum fyrir flutningi, svo sem ef þær reynast innihalda tölvuveirur eða aðra líka óværu, að verða stöðvaðar án sérstakrar aðvörunar. Mappan vaktar hins vegar að öðru leyti ekki sjálfkrafa efni þeirra gagna sem kaupendur setja inn í kerfið eða notendur senda sín á milli. Sá notandi sem sendir gögn til annars notanda tekur því sjálfur einn alla ábyrgð á því efni, sbr. grein 10 hér síðar.

ePóstur á enga aðild að þeim viðskiptum sem kaupendur og notendur kunna að eiga með sér á grundvelli þeirra gagna sem Mappan tekur að sér að birta.

Að beiðni Þjóðskjalasafns Íslands vekur ePóstur sérstaka athygli á að stofnanir ríkisins, fyrirtæki í eigu þess og aðrir sem skilaskyldir eru til safnsins, sbr. nú 5. gr. laga nr. 66/1985 um safnið, losna á engan hátt undan þeirri skilaskyldu sinni með því að senda þau gögn sem undir hana falla inn í Möppuna eða vista þau þar.

4.3.        Aðgangsstýring, ábyrgð, eftirlit

Aðgangi notenda að Möppunni er stýrt með því að nota þau auðkenni sem ePóstur metur viðeigandi hverju sinni, til dæmis aðgangs- og lykilorð eða rafræn skilríki. Notanda og starfsmönnum hans er óheimilt að sniðganga slíkar eða aðrar aðgangshindranir eða öryggisráðstafanir, deila aðgangi sínum með öðrum eða gera nokkrar tilraunir til að ná öðrum aðgangi að Möppunni, tengdum kerfum eða undirliggjandi gögnum, heldur en þeim aðgangi sem ePóstur hefur sérstaklega veitt notanda og augljóst má vera að honum er heimilt að nýta.

ePósti er heimilt að hafa eftirlit með notkun Möppunnar, t.d. til að tryggja rétta meðferð kerfisins, rétt form gagna og til að leita leiða til að koma í veg fyrir að vandkvæði leiði af óheimilum aðgerðum. Ef meðferð efnis í Möppunni eða notkun notanda á kerfinu er ekki með eðillegum hætti að mati ePósts hefur hann heimild til að takmarka eða loka fyrir aðgang notanda að kerfinu fyrirvaralaust.

Notandi skuldbindur sig til að eiga með engum hætti við þann hugbúnað sem ePóstur leggur honum til og nota hann eingöngu á þann hátt sem ePóstur hefur leiðbeint honum um.

Sé notandi atvinnurekandi, ákveður hann sjálfur hvaða starfsmenn hans annast samskipti við Möppuna. ePóstur áskilur sér þó rétt til að grípa inn í ef hann telur ástæðu til. Öll gögn sem notandi sendir öðrum notendum eru alfarið á hans ábyrgð en ekki ePósts. Notandi ber sjálfur skynbragð á afleiðingar þess að röng gögn séu send öðrum notendum og ber einn alfarið alla ábyrgð á afleiðingum af slíkum aðgerðum.

5.      Önnur þjónusta

5.1.        Notendaþjónusta

ePóstur veitir notendum notendaþjónustu vegna Möppunnar með tvennum hætti, símleiðis og um tölvupóst, virka daga kl. 9.00 – 17.00. Símanúmer og netföng þjónustunnar eru birt á vefsíðu Möppunnar.

5.2.        Lagfæringar

Komi upp atvik sem notandi telur að sé galli í virkni Möppunar getur hann tilkynnt ePósti í tölvupósti um atvikið. Ef ePóstur fellst á að umrætt atvik kalli á lagfæringar á kerfinu mun hann framkvæma þær á sinn kostnað og flýta þeim lagfæringum eftir því sem honum virðist skynsamlegt.

6.      Öryggi, uppitími og vistun

ePóstur skuldbindur sig til að tryggja eftir fremsta megni öryggi þeirra gagna sem vistuð eru í miðlægum gagnagrunni Möppunnar hverju sinni, þ.e. eftir atvikum leynd þeirra, heilleika og aðgengi að þeim. ePóstur ber hins vegar ekki ábyrgð á því ef öryggi umræddra gagna rofnar, þ.e. ef leynd, heilleiki eða aðgengi að upplýsingunum skerðist, nema slíkt verði rakið til ásetnings eða meiriháttar gáleysis ePósts.

ePóstur ber ekki ábyrgð á tjóni sem kann að hljótast af saknæmri háttsemi þriðja aðila, svo sem vegna aðgerða slíks aðila til að öðlast og nýta óheimilan aðgang að kerfinu.

ePóstur stefnir að því að á sérhverju 365 daga tímabili verði uppitími og virkni Möppunnar að lágmarki 95%. ePóstur áskilur sér rétt til að rjúfa fyrirvaralaust tengingar við Möppuna, svo sem vegna öryggis kerfisins, ef vart verður við óeðlilega notkun eða tilraunir til slíks, eða vegna uppfærslna á hugbúnaði þess.

Notandi lýsir því hér með yfir að hann gerir sér grein fyrir að Möppunni er ekki ætlað að gegna hlutverki langtímavistunar fyrir þau gögn sem flutt eru um hana, svo sem vegna ákvæða laga eða annarra opinberra fyrirmæla.

7.      Þróun, viðhald og uppfærslur á Möppunni

Viðhald, þróun og uppfærslur Möppunnar er alfarið á forræði ePósts, þar á meðal ákvörðunarvald um breytingar og nýjungar í Möppunni, hvort sem þær eru að frumkvæði ePósts sjálfs eða annarra. ePóstur áskilur sér einhliða rétt til að breyta, auka eða minnka án fyrirvara þá þjónustu sem veitt er í Möppunni.

ePóstur ber ekki ábyrgð á því ef þróun Möppunar hefur þær afleiðingar að nauðsynlegt verður fyrir notanda að framkvæma breytingar á því sem hann nýtir til samskipta við Möppuna, svo sem vélbúnað eða hugbúnað, þar á meðal frá þriðja aðila, né tekur ePóstur á neinn hátt þátt í kostnaði sem mögulega hlýst af því. Reyni notandi að nýta búnað til samskipta við Möppuna sem ekki er nægjanlega samhæfður henni er ePósti heimilt án frekari tafar að loka fyrir aðgang notanda að kerfinu að hluta eða að fullu, telji ePóstur að umræddur búnaður valdi hættu á truflunum í rekstri þess.

8.      Trúnaður og þagnarskylda

ePóstur skuldbindur sig, svo langt sem lög og dómstólar leyfa, til að gæta þagnarskyldu um hvaðeina varðandi notanda sem fram kemur í gögnum í Möppunni og skylt er eða eðlilegt að leynt fari. Þagnarskylda helst eftir að samningssambandi aðila lýkur.

Mappan, högun hennar og hugbúnaður kunna að innihalda viðskiptaleyndarmál eða varða með öðrum hætti mikilvæga viðskiptahagsmuni ePósts, birgja hans, verktaka eða aðra viðsemjendur. Notandi skuldbindur sig til að afþýða hvorki né bakhanna (e. reverse engineer) Möppuna eða einstaka hluta hennar eða reyna með öðrum hætti að afhjúpa framangreindar upplýsingar um hana. Komist notandi samt sem áður yfir slíkar upplýsingar skuldbindur hann sig hér með til að miðla þeim ekki eða ljóstra upp um þær með neinum öðrum hætti, nema að fyrirfram fengnu skriflegu samþykki ePósts.

9.      Gallar og bilanir

Notandi gerir sér grein fyrir að Mappan er ekki villulaus hugbúnaður frekar en annar hugbúnaður og að í kerfinu eru eða kunna að vera minniháttar gallar. Um lagfæringar kerfisins fer skv. grein 5.2 hér að framan.

10.   Ábyrgð á efni

Notandi ber ávallt ábyrgð á því gagnvart ePósti að hafa fulla ráðstöfunarheimild yfir þeim gögnum sem hann setur inn í Möppuna eða sendir til annarra notenda, þar á meðal heimild til að birta þau þar og að þau gögn séu ávallt að fullu og öllu í samræmi við gildandi útgáfur skilmála þessa, notendaleiðbeiningar kerfisins, gildandi lög og stjórnvaldsreglur, þar með talin refsiákvæði og ákvæði um hugverkaréttindi, velsæmi og meðferð persónuupplýsinga. ePóstur áskilur sér rétt til að fjarlægja án fyrirvara gögn sem ekki uppfylla þær kröfur um leið og kvartanir berast eða þeirra verður vart með öðrum hætti.

Notandi ber einn alfarið alla ábyrgð á hvers konar afleiðingum staðhæfinga sinna um og í þeim gögnum sem hann setur inn í Möppuna eða sendir til annarra notenda, á því að þau gögn reynist ekki vera efnislega rétt, sem og á afleiðingum framangreindra brota sem kunna að eiga sér stað. Notandi leysir hér með ePóst varanlega og óafturkræft undan allri ábyrgð á framangreindu og skuldbindur sig til að halda ePósti að fullu og öllu skaðlausum af hverjum þeim kostnaði og tjóni sem ePóstur kann að verða fyrir af framangreindum sökum og af sérhverjum kröfum sem kann að verða beint að ePósti af því tilefni.

11.   Takmörkun ábyrgðar

ePóstur ber enga ábyrgð á göllum eða bilunum, hverju nafni sem slíkt nefnist, í hugbúnaði, vélbúnaði, netkerfum eða öðru sem lögð eru til af notanda eða þriðja aðila, þar á meðal hýsingaraðila kerfisins hverju sinni.

ePóstur ber ekki ábyrgð á þeim gögnum sem kaupendur eða notendur setja í Möppuna eða á því að efni þeirra sé með þeim hætti sem kaupendur eða notendur höfðu búist við eða ætlað. Notandi skuldbindur sig til að hafa ekki uppi kröfur af neinu slíku tagi gagnvart ePósti.

Um ábyrgð ePósts sem milligönguaðila i rafrænum viðskiptum gilda ákvæði laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nú V. kafla laga nr. 30/2002.

Að öðru leyti er bótaábyrgð ePósts bundin því skilyrði að beint og ótvírætt tjón notanda megi rekja til ásetnings eða meiriháttar gáleysis ePósts eða starfsmanna hans. Fjárhæð bóta vegna slíkrar háttsemi skal takmarkast við beint tjón notanda, sbr. þó niðurlag þessarar greinar.

ePóstur ábyrgist ekki tjón sem verður við það að óviðkomandi komast yfir aðgang að eða misnota Möppuna, eða önnur kerfi tengd ePósti, eða upplýsingar í slíkum kerfum, né tjón sem leiðir af því að sá búnaður sem notaður er til tenginga við Möppuna reynist ekki vera samhæfður henni eða að slíkar tengingar orsaka villur, svo sem í hugbúnaði.

Allt að einu takmarkast bótaábyrgð ePósts í sérhverju tilviki ávallt í mesta lagi við það verð sem ePósti var greitt fyrir vistun og birtingu þeirra gagna sem þar um ræðir.

12.   Hugverkaréttindi

Mappan, tengd gögn og búnaður sem stafa frá ePósti, í núverandi mynd og þeirri mynd sem kerfið kann að taka á sig í framtíðinni, eru alfarið einkaeign hans að öllu leyti, þar á meðal öll hönnun, högun og forritunarkóði, notkunarleiðbeiningar, kynningar- og kennsluefni o.þ.h. ePóstur og birgjar hans eiga einir allan hugverkarétt, þar með talinn höfundarrétt, að öllum slíkum gögnum, búnaði og efni. ePóstur veitir notanda afmarkað og tímabundið leyfi til notkunar þessa búnaðar eftir því sem nánar er kveðið á um í skilmálum þessum og nauðsynlegt er til að framkvæma það sem í þeim greinir. Notkunarleyfi þetta fellur að fullu og öllu niður um leið og aðgangi notanda að kerfinu hefur verið lokað eða notkun hans lýkur af öðrum sökum. Skal notandi þá tafarlaust eyða af tölvubúnaði sínum sérhverju eintaki sem þar er af hugbúnaði eða öðru efni sem ePóstur hefur lagt honum til í tengslum við aðganginn.

Með samningi þessum öðlast notandi eða aðrir en ePóstur engan höfunda- eða hugverkarétt að Möppunni eða öðrum hugbúnaði eða hugverkum sem tengjast eða kunna að tengjast Möppunni, þar með töldum hverjum þeim séraðlögunum eða sérsmíði sem kann að verða bætt við Möppuna, hvort sem slíkt verður gert að frumkvæði ePósts eða af öðrum sökum. Hið sama gildir varðandi tengt efni, svo sem leiðbeiningar um notkun, annað kynningar- og kennsluefni o.þ.h.

Notanda er óheimilt að breyta eða eyða upplýsingum frá ePósti er varða réttindi, vörumerki eða annað þess háttar. Ber notanda að leita allra tiltækra leiða til að koma í veg fyrir að starfsmenn hans eða aðrir breyti eða sneiði hjá framangreindum hindrunum eða breyti fyrrgreindum upplýsingum.

13.   Persónuvernd og meðferð upplýsinga

Hver kaupandi er ábyrgðaraðili og ePóstur er vinnsluaðili sérhverra þeirra persónuupplýsinga sem kann að vera að finna í þeim gögnum sem viðkomandi kaupandi sýslar með í Möppunni. Hefur ePóstur gert sérstakan samning við hvern kaupanda og gegna þeir samningar meðal annars hlutverki vinnslusamninga, í skilningi laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Þegar gögn hafa verið flutt í pósthólf notanda gerist viðtakandi notandi ábyrgðaraðili vinnslu þeirra persónuupplýsinga sem kann að vera að finna í þeim gögnum.

Er ePósti skylt að vinna framangreindar persónuupplýsingar eingöngu í samræmi við efni umræddra vinnslusamninga og fyrirmæli viðkomandi ábyrgðaraðila. Ábyrgðaraðili ber ábyrgð á því gagnvart ePósti að ábyrgðaraðili hafi á hverjum tíma viðeigandi heimildir, svo sem samþykki hins skráða, fyrir þeirri vinnslu persónuupplýsinga sem hann stundar í eða með Möppunni.

ePósti er nauðsynlegt að vinna með þær upplýsingar sem finna má í framangreindum gögnum í Möppunni til að gegna hlutverki sínu sem rekstraraðili kerfisins. Þessar upplýsingar eru einkum notaðar til að tryggja rekjanleika færslna og við aðra daglega starfsemi tengda Möppunni. ePósti er enn fremur nauðsynlegt að vinna upplýsingarnar í þeim tilgangi að gefa út rétta reikninga til kaupanda og uppfylla kröfur réttarreglna um bókhald og reikningagerð.

Við vinnslu upplýsinga í Möppunni, þar á meðal persónuupplýsinga, er aðgangur takmarkaður við þá starfsmenn ePósts sem þurfa slíkan aðgang starfs síns vegna. Auk þess er ePósti eðli máls samkvæmt heimilt að miðla upplýsingum í gögnum, til viðkomandi notenda og til vinnsluaðila, svo sem aðila sem gert hafa þjónustusamninga við kaupanda eða ePóst; annarra aðila sem nauðsynlegt er að fái viðkomandi upplýsingar svo notandi fái notið þjónustu Möppunnar; auk aðila sem ePósti er á hverjum tíma skylt að veita upplýsingar á grundvelli laga, dómsúrskurðar eða ákvörðunar þar til bærra yfirvalda.

ePóstur tryggir öryggi persónuupplýsinga með því að leitast við að uppfylla á hverjum tíma lög og reglugerðir sem lúta að persónuvernd og viðhafa þær öryggisráðstafanir sem vísað er til í grein 6 hér að framan.

Persónuupplýsingar eru einungis varðveittar á meðan á varðveislutíma viðkomandi gagna stendur, eins lengi og lög mæla fyrir um eða svo lengi sem málefnaleg ástæða er til.

14.   Lokun aðgangs

Ef notandi brýtur ákvæði skilmála þessara hefur ePóstur rétt til að svipta hann aðgengi að Möppunni.

Notandi ber alla ábyrgð á því tjóni sem hann eða aðrir kunna að verða fyrir vegna áðurgreindrar sviptingar aðgengis að Möppunni, þar á meðal tjóni sem ePóstur hefði að öðrum kosti verið talinn bera ábyrgð á.

Þegar notandi hefur verið sviptur aðgengi eru gögn í pósthólfi hans tekin úr Möppunni. Að því loknu er slíkt efni varðveitt af ePósti að hámarki í 30 almanakasdaga og getur notandi vitjað eintaka af því innan þess tíma í samráði við ePóst. Að liðnum þeim tíma er viðkomandi efni eytt án fyrirvara.

15.   Breytingar á skilmálum þessum

ePóstur hefur rétt til að gera einhliða breytingar á samningsskilmálum þessum og skulu slíkar breytingar taka gildi gagnvart notanda þegar hann hefur staðfest, næst þegar hann tengist þjónustunni, með því að smella á hnapp í viðmóti með hinum breyttu skilmálum merktur „SAMÞYKKJA SKILMÁLA“, að hafa kynnt sér efni hinna breyttu skilmála, samþykkt þá án fyrirvara, skuldbundið sig til að fylgja þeim í hvívetna og undirgengist þær skyldur notanda sem í þeim eru.

Kjósi notandi að samþykkja ekki skilmála getur hann ekki fengið aðgengi að Möppunni. Hann getur þá óskað eftir lokun aðgangs í samræmi við grein 14 hér að framan og nálgast gögn sín úr Möppunni innan þess frests sem þar er tilgreindur, eða fengið gögnin send í samráði við ePóst.

16.   Lögsaga og varnarþing

Um sérhvern ágreining sem tengist skilmálum þessum skal fara að íslenskum lögum.

Rísi réttarágreiningur vegna skilmála þessara eða um efni þeirra skal dómsmál um slíkan ágreining rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Skilmálar þessir gilda frá og með 1. febrúar 2013.